Hér er ágrip af sögu Fiskmarkaðar Íslands en lengri útgáfu má nálgast hér.


 

Á fundi Héraðsnefndar Snæfellinga 3. september 1991 var ákveðið að hefja undirbúning að stofnun fiskmarkaðs á Snæfellsnesi. Fram hafði komið að mikið magn af fiski væri flutt burt af svæðinu og vildu Snæfellingar efla atvinnulíf á svæðinu með því að stofna fiskmarkað.

Á grunni vinnu undirbúningsnefndar var ákveðið að stofna hlutafélag um rekstur fiskmarkaðs og var efnt til almennrar hlutafjársöfnunar á svæðinu. Um 80 fyrirtæki og einstaklingar voru skráðir fyrir hlutafé við stofnun félagsins, þar á meðal hafnarsjóðir sveitarfélaganna á Snæfellsnesi.

Eiginleg starfsemi Fiskmarkaðs Breiðafjarðar hf. hófst með opnun starfsstöðvar í Ólafsvík og fór fyrsta uppboðið fram 8. janúar 1992. Fljótlega voru einnig opnaðar starfsstöðvar í Grundarfirði, Stykkishólmi, Rifi og á Arnastapa.

Árið 1999 var Fiskmarkaður Snæfellsness hf., sem einnig var rekinn í Ólafsvík, sameinaður félaginu og ári síðar var Faxamarkaður hf. í Reykjavík, sem einnig var með starfsemi á Akranesi, sameinaður FMB og nafni þess breytt í Fiskmarkaður Íslands hf. Á árinu 2001 keypti félagið allt hlutafé i Fiskmarkaði Suðurlands hf. og sameinaði það Fiskmarkaði Íslands hf. Við það bættist við starfsstöð í Þorlákshöfn. Á þessum þremur árum 1999 – 2001 tvöfölduðust umsvif félagsins.

Flokkunar- og slægingarþjónusta bættist við starfsemina 2006 og á árinu 2007 var allt hlutafé í fiskmarkaðnum Örva ehf. á Skagaströnd keypt og það félag sameinað Fiskmarkaði Íslands hf.

Fiskmarkaður Íslands opnaði starfstöð á Bolungarvík haustið 2017.

Fiskmarkaður Íslands hf. er í dag með starfsemi á níu stöðum, Arnarstapa, Bolungarvík, Grundarfirði, Ólafsvík, Reykjavík, Rifi, Skagaströnd, Stykkishólmi og Þorlákshöfn.

Í frétt Morgunblaðsins 9. október 1991 var sagt að litið væri á stofnun félagsins sem mikilvægt samstarfsverkefni, sem væntanlega leiði til annars og meira í þeim efnum þegar fram líða stundir. Starfsemi Fikmarkaðs Íslands hf. hefur frá upphafi gengið vel og haft jákvæð áhrif á sjávarútveg og samfélögin á starfssvæði sínu. Á fyrsta starfsári FMB voru seld 9.783 tonn fyrir um 758 milljónir króna eða meðalverð uppá 77,69 kr. pr. kg. Árið 2009 voru seld 47.700 tonn hjá Fiskmarkaði Íslands fyrir um 10,3 milljarða króna. Hlutdeild Fiskmarkaðs Íslands, í seldu magni og verðmætum hjá 13 fiskmörkuðum landsins, hefur undanfarin ár verið á bilinu 28-30%.

 


 
 
 
 
 

Fiskmarkaður Íslands - Norðurtanga - 355 Ólafsvík - Sími 430 3700 - fmis@fmis.is